Innlent

Eftirlitsnefndin virkar ekki sem skyldi

Eftirlitsnefnd fasteignasala er bara pappírstígrisdýr, sem slær á puttana á lögbrjótum og segir skamm, þrátt fyrir að brotin séu mjög alvarleg, segir formaður Húseigendafélagsins. Félag fasteignasala hefur leitað til dómsmálaráðuneytisins vegna þess hve nefndin vinnur hægt og tekur lítt á málum.

Fasteignasali sem seldi uppkomnum syni sínum íbúð viðskiptavinar braut gegn lögum um fasteignasala. Þetta er álit eftirlitsnefndar Félags fasteignasala, en einu viðurlögin sem salinn var hinsvegar beittur var áskorun um að bæta ráð sitt. Nefndin hefur heimild til að veita alvarlegar áminningar, svipta menn réttindum og loka starfsstöðvum þeirra.

Félag fasteignasala í Danmörku sektar óhikað félagsmenn sina. Nýlega fékk fasteignasali sekt upp á tæpa hálfa milljón íslenskra króna fyrir að kaupa sjálfur lúxusíbúð beint fyrir framan nefið á áhugasömum kaupanda.

Parið sem varð af íbúðinni við þetta lögbrot fasteignasalann verður að fara fyrir dómstóla vilji þau fá kaupunum rift og fasteignasalanum refsað með einhverjum hætti.

Björn Þorri Viktorsson, formaður félags fasteignasala, segir félagið hafa leitað til dómsmálaráðuneytisins vegna þess hvað því finnst nefndin vinna hægt og taka lítt á málum. Félagið hafi reynt í nokkra mánuði að koma málum til betri vegar, en lítið áunnist.

Ekki sé langt síðan framkvæmdastjóri félagsins sendi ítrekun til nefndarinnar vegna 50 erinda, sem send voru nefndinni, sem ýmist hefur ekki verið svarað eða ekki afgreidd.

Ekki náðist í formann eftirlitsnefndarinnar í dag. Magnús Einarsson, einn þriggja nefndarmanna, vildi ekki láta hafa neitt eftir sér að sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×