Innlent

Vilja konu í ráðherrastól

"Framsóknarkonur vilja fljótlega sjá breytingu í æðstu stöðum flokksins verði hlutur kvenna fyrir borð borinn," segir Una María Óskarsdóttir, formaður Landssambands framsóknarkvenna: "Það skiptir máli að fleiri konur innan flokksins verði ráðherrar." Rúmlega 130 framsóknarmenn mættu á fund Landssambandsins til að mótmæla bakslagi í jafnréttismálum flokksins. Framsóknakonur segjast hafa sofið á verðinum þegar ákveðið var að Siv Friðleifsdóttir stigi úr stóli umhverfisráðherra. Sigrún Magnúsdóttir, fyrrum borgarfulltrúi, opnaði fund framsóknarkvenna með baráttuávarpi. Hún sagði formann, varaformann og ritara flokksins skipa forystusveit Framsóknarflokksins. "Við látum ekki strákshvolpa lítilsvirða Framsóknarflokkinn og störf okkar. Né látum við þá vanvirða stefnumálefni flokksins og grafa þannig undan fylgi flokksins." Sigrún blés á orð Guðjóns Ólafs Jónssonar, varaþingmann flokksins, sem sagði í pisti á vefriti óánægju kvenna stafa af litum frama þeirra innan flokksins. Hann hafi sjálfur leitað eftir framgangi sér til handar í þremur kjördæmum. Í ályktun fundarins segir meðal annars að framsóknarkonur sætti sig ekki við annað en að vera metnar að verðleikum og að hafa sömu möguleika og karlar til áhrifa og valda innan flokksins og úti í þjóðfélaginu. Framsóknarkonur sem Fréttablaðið ræddi við horfa margar til fyrirhugaðra breytinga í ráðherraliði Halldórs Ásgrímssonar á kjörtímabilinu. Magnús Stefánsson, þingmaður sem aðild á í jafnréttisnefnd flokksins, og Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, segja ekkert loforð liggja fyrir um að sú breyting verði konu til framdráttar. Of snemmt sé að spá um slíkt. Haukur Logi Karlsson, formaður Sambands ungra framsóknarmanna, segir mikla óánægju innan flokksins undanfarna daga hafa endurspeglast á fundinum: "Nú er það forystunnar og flokksins að bregðast við þessari óánægju."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×