Erlent

Réttarhöld yfir Milosevic hafin

Ásakanir sem Slobodan Milosevic er borinn eru helberar lygar og málflutningur saksóknara við stríðsglæpadómstólinn í Haag er byggður á útúrsnúningi á mannkynssögunni. Þessu hélt Milosevic fram í morgun, þegar hann hóf málsvörn sína.  Milosevic var þvermóðskufullur þegar hann birtist í rétti í Haag í morgun og hóf málsvörn sína, tveimur mánuðum síðar en til stóð. Upphaflega olli heilsubrestur því, að fresta varð málinu, en hann er sakaður um þjóðarmorð, glæpi gegn mannkyni og stríðsglæpi í Króatíu, Bosníu og Kósóvó. Á næstu vikum vill Milosevic kalla til 150 vitni, þeirra á meðal Tony Blair, Bill Clinton og Gerhard Schröder og hyggst Milosevic sýna fram á að ásakanir áhendur honum séu lygar og útúrsnúningur. Stríðin sem um ræðir hafi verið tilraunir Vesturlanda, NATO, albanskra eiturlyfjasmyglara í Kósóvó, íslamskra skæruliða og Vatíkansins til að skipta upp Júgóslavíu. Að auki segir Milosevic að stríðsglæpadómstóllinn í Haag sé andsnúinn honum persónulega og Serbum öllum. Eini tilgangur dómstólsins að mati Milosevic er sá, að breiða yfir stríðsglæpi NATO í Kósóvó, í stríði sem Bandaríkin og Bretland stóðu fyrir. Milosevic virtist rólegur og yfirvegaður í morgun þegar hann hóf málflutning sinn, en að hálfu réttarins verður áfram fylgst náið með heilsu Milosevic og kannað hvort að nauðsynlegt reynist að skipa honum verjanda, en Milosevic hefur krafist þess að fá að verja sig sjálfur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×