Innlent

Þurfti að gefa upp kennitölu

Það er andstætt lögum að krefjast kennitölu við venjuleg staðgreiðsluviðskipti, svo sem þegar fólk kaupir miða á tónleika. Eldri kona þurfti nýlega að gefa upp kennitölu til að fá að kaupa miða á tónleika í Salnum í Kópavogi. Persónuvernd hefur málið til umfjöllunar, en margar svipaðar kvartanir berast ár hvert. Nýlega lenti eldri kona í því þegar hún keypti miða á tónleika í Salnum í Kópavogi að hún var beðin að gefa upp kennitölu sína. Var hún ekki sátt við það, en var tjáð í miðasölunni að hún gæti annars ekki keypt miðann. Gerði hún það þá til að komast á tónleikana, en kvartaði til Persónuverndar. Yfirmaður miðasölu í Salnum segir að beðið sé um kennitölu svo hægt sé að halda vel utan um viðskiptamannahópinn. Nöfn þeirra séu prentuð á miðana, og margir heiti sama nafni. Auk þess sé beðið um símanúmer svo hægt sé að hafa samband við viðkomandi ef tónleikar falla niður. Hún neitaði því þó að kenntala sé skilyrði fyrir því að fá að kaupa miða. Það er skýrt í lögum um Persómuvernd að ekki sé heimilt að krefja fólk um kennitölu, nema það hafi málefnalegan tilgang og sé nauðsynlegt til að tryggja örugga persónugreiningu. Lögfræðingur hjá Persónuvernd segir að það að krefjast kennitölu við venjuleg staðgreiðsluviðskipti svo sem við kaup á miðum á tónleika í Salnum virðist andstætt lögunum. Fyrri úrskurðir Persónuverndar hafi einmitt fallið á þá leið, enda fær Persónuvernd reglulega til sín kvartanir frá fólki sem hefur þurft að gefa upp kennitölur sínar í venjulegum viðskiptum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×