Erlent

Heimildir brjóta gegn stjórnarskrá

Í annað sinn á skömmum tíma hefur fallið dómur þar sem svokölluð þjóðræknislög, sem Bandaríkjaþing samþykkti eftir hryðjuverkaárásirnar 11. september 2001, eru sögð brjóta gegn stjórnarskránni. Lögin veita bandarískum lögreglustofnunum víðtækar leitar- og eftirlitsheimildir sem dómarar segja ganga of nærri persónuvernd einstaklinganna. Þjóðræknislögin heimila lögreglu að safna upplýsingum um síma- og netnotkun einstaklinga án þess að einstaklingarnir fái nokkurn tíma að vita af því. Bandarískur alríkisdómari hefur nú kveðið upp þann úrskurð að þetta brjóti gegn því ákvæði stjórnarskrárinnar sem kveður á um að fólk geti leitað réttar síns gagnvart yfirvöldum. Þar sem lögin banna síma- og netfyrirtækjum að láta viðskipti sína vita um eftirlitið er tekið fyrir þann möguleika í lögunum. Í janúar komst annar alríkisdómari að þeirri niðurstöðu að annar hluti laganna, sem bannar fólki að aðstoða hryðjuverkasamtök eða veita þeim upplýsingar, bryti gegn stjórnarskránni þar sem ákvæðin væru of almennt orðuð og gætu brotið gegn málfrelsisákvæðum stjórnarskrárinnar. "Það er næstum öruggt að þessu verður áfrýjað," sagði John Ashcroft dómsmálaráðherra en mannréttindasamtök fögnuðu niðurstöðunni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×