Innlent

Áhugi á olíuleit á Íslandi glæðist

Áhugi á olíuleit í íslenskri lögsögu ætti að glæðast mjög eftir að risastór olíulind fannst á mörkum breskrar og færeyskrar lögsögu. Talið er að allt að því fimm hundruð milljónir tunna af olíu sé þar að finna.  Lindin fannst á ellefu hundruð metra dýpi í lok ágúst og telja sérfræðingar að þar sé bæði olíu og gas að finna. Hún er 126 kílómetra út af Færeyja-Hjaltlands rennunni en olía hefur áður fundist þar í breskri lögsögu. Það leiddi til þess að leit var hafin í færeyskri lögsögu og fundarins nú. Olían sem nú fannst er hins vegar talsvert norðar en olía hefur fundist áður. Olíulindin er talin mjög stór og reynist hún liggja í sandlögum, eins og íslenskir jarðeðlisfræðingar telja, gæti það haft afleiðingar fyrir Íslendinga. Jarðsögulega er Færeyja-Hjaltlands rennan ekki ósvipuð Jan Mayen hryggnum svokallaða, og því ekki úr vegi að leita olíu þar. Ísland og Noregur deila lögsögu yfir hryggnum. Steinar Þór Guðlaugsson hjá íslenskum orkurannsóknum segir þetta mjög jákvæðar fréttir fyrir Færeyinga sem hafa glaðst mjög í dag, eins og sjá má á fyrirsögnum færeyskra fjölmiðla.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×