Innlent

Spara mætti 240 milljónir á ári

Stjórnendur Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar telja að hægt væri að flytja innanlandsflug til Keflavíkur á innan við einu ári og spara verulegt fé. Höskuldur Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Leifsstöðvar, skýrði frá því á fundi nýverið að allt að tvö hundruð og fjörutíu milljónir myndu sparast á ári við flutninginn. Á fundi stjórnenda Leifsstöðvar og Aflvaka, þróunarfélags Reykjavíkurborgar, fyrir skömmu kom fram að kostnaður við rekstur Reykjavíkurflugvallar nemi á ári hverju um 300 milljónum fyrir utan yfirstjórn og stofnkostnað. Rekstur innanlandsflugs á Keflavíkurflugvelli myndi sennilega kosta um 60 til 80 milljónir á ári fyrir utan stofnkostnað, að mati stjórnenda Leifsstöðvar. Davíð Oddsson utanríkisráðherra ljáði máls á því í viðræðum við Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, fyrir skemmstu að Íslendingar tækju á sig stærri hluta af rekstrarkostnaði Keflavíkurflugvallar og hafa spurningar vaknað í kjölfarið um hvort nú sé lag að flytja starfsemi Reykjavíkurflugvallar til Keflavíkur í sparnaðarskyni. Ari Skúlason, framkvæmdastjóri Aflvaka, áréttar að ekki sé búið að staðfesta þessar tölur um sparnað sem slegið hafi verið fram á fundinum, þó svo að standa megi við fullyrðingar um sparnað vegna samlegðaráhrifa við annan rekstur. "Það sem liggur í þessu er að hægt er að ná fram verulegum sparnaði og greinilega hægt að taka við innanlandsfluginu með tiltölulega stuttum fyrirvara," sagði hann og bætti við að með flutningi innanlandsflugsins næðist greinilega aukið rekstrar- og vinnuhagræði á Keflavíkurflugvelli. Aflvaki hefur í kjölfar ráðstefnu um "stórborgina" sem haldin var síðasta vor fundað með forsvarsmönnum nágrannasveitarfélaga höfuðborgarinnar þar sem velt hefur verið upp hugmyndum um aukið samstarf. Fundurinn með Leifsstöðvarmönnum tengdist viðræðum við Reykjanessbæ.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×