Erlent

Rétti frestað vegna veikinda

Fresta varð réttarhaldi yfir Slobodan Milosevic, fyrrverandi forseta Júgóslavíu, í morgun þar sem Milosevic er veikur. Saksóknarar vilja að honum verði skipaður verjandi og málinu haldið áfram. Milosevic er lögfræðingur að mennt og hefur fram til þessa stýrt eigin vörn. Í dag átti hann að flytja fjögurra klukkustunda langa varnarræðu, en af því varð ekki, þar sem hann er veikur. Hár blóðþrýstingur, flensa og ofþreyta hafa háð honum mjög undanfarið. Dómarar í málinu munu síðar í dag eða á morgun úrskurða um framgang málsins, en saksóknarar krefjast þess að honum verði fenginn verjandi, svo að unnt sé að halda réttarhaldinu áfram. Milosevic, sem er 62 ára gamall, er ákærður fyrir þjóðarmorð, glæpi gegn mannkyni og stríðsglæpi sem framdir voru á Balkanskaga á tíunda áratug síðustu aldar. Hann hefur ávallt neitað sök og kveðst hafa verið friðarstillir, sem nú fái að kenna á fordómum NATO-ríkjanna. Í raun hafi Bandaríkin, Bretland, Þýskaland og Ósama bin Laden stutt frelsisher Kósóvó, hryðjuverkamenn að mati Milosevic. Að því tilskyldu að réttarhaldið haldi áfram áður en á löngu líður hefur Milosevic 150 virka daga til að flytja mál sitt, og hefur hann lýst því yfir að hann hyggist stefna Bill Clinton, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, og Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, fyrir dóm til að bera vitni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×