Erlent

Sjö létust og 15 slösuðust á Gaza

Að minnsta kosti sjö Palestínumenn létust og fimmtán slösuðust þegar hersveitir Ísraela réðust inn í borg á norðurhluta Gaza-svæðisins í dag. Jassir Arafat, leiðtogi Palestínumanna, segir að árásirnar séu fjöldamorð og að Ísraelsmenn hafi útilokað frið á svæðinu með þessum aðgerðum. Árásirnar í dag eru þær mannskæðustu undanfarnar vikur á Gaza-svæðinu og enn eina ferðina andar köldu á milli Ísraela og Palestínumanna. Nokkuð róstursamt hefur verið á Gaza-ströndinni undanfarið og í gær slösuðust t.a.m. þrír hermenn Ísreala, þar af einn alvarlega, í árásum palestínskra skæruliða. Að minnsta kosti fimm þeirra sem létust í morgun voru palestínskir byssumenn, þeirra á meðal einn af leiðtogum Hamas-samtakanna, Nahed Abu Ouda. Auk þess létu lífið í árásinni miðaldra maður og 35 ára gömul kona, sem áttu leið hjá. Jassir Arafat, leiðtogi Palestínumanna, segir fráleitt af Ísraelsmönnum að tala um að koma á friði á sama tíma og þeir stundi fjöldamorð í stórum stíl.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×