Erlent

Lífstíðardómur Mijailovic ógiltur

Áfrýjunardómstóll í Svíþjóð ógilti í dag lífstíðardóm yfir Mijailo Mijailovic, morðingja Önnu Lindh utanríkisráðherra Svíþjóðar, og dæmdi hann þess í stað til vistunar á réttargeðdeild. Mögulegt er að niðurstöðunni verði áfrýjað til hæstaréttar Svíþjóðar. Í niðurstöðum áfrýjunardómstólsins segir að þar sem Mijailovic hafi verið illa haldinn af geðveilu þegar hann myrti Lindh í september á síðasta ári eigi hann mun frekar heima á geðsjúkrahúsi en í fangelsi. Niðurstöður fyrri geðrannsókna á honum, sem framkvæmdar voru skömmu eftir morðið á Lindh, höfðu ekki leitt í ljós geðveilu og því var hann þá dæmdur í lífstíðarfangelsi. Nýlegri rannsóknir benda hins vegar til að Mijailovic þjáist af alvarlegum persónuleikaröskunum og tók áfrýjunardómstóllinn mið af því. Í dómnum frá því í morgun segir að það sé samdóma álit geðlækna að Mijailovic sé alvarlega skaddaður einstaklingur með miklar geðtruflanir sem þurfi á sjúkrahúsvist að halda. Hann skuli því fluttur á réttargeðdeildina í Huddinge þar sem ákvörðun verði tekin um hvaða meðferðarstofnun skuli hýsa hann. Þrátt fyrir fyrrgreinda niðurstöðu áfrýjunardómstólsins var beiðni verjenda Mijailovic, um að breyta dómnum yfir honum úr morði í manndráp af gáleysi, hafnað þar sem sýnt þótti að fyrirætlan hans hafi klárlega verið sú að myrða Lindh. Niðurstaðan þykir samt sem áður mikill sigur fyrir verjandann sem fór fram á ítarlegri geðrannsóknir á skjólstæðingi sínum eftir að hann var fundinn sakhæfur. Líklegt verður að teljast að niðurstöðunum frá því í morgun verði áfrýjað til hæstaréttar Svíþjóðar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×