Erlent

Stærstur hluti Falluja hertekinn

Bandarískar og íraskar hersveitir hafa náð 80 prósentum Falluja á sitt vald, að sögn yfirmanna Bandaríkjahers. Enn er þó barist hús úr húsi á þeim svæðum sem hermenn hafa náð á sitt vald. Þar er verið að leita uppi og fella þá vígamenn sem hafa falið sig þegar fremstu hersveitirnar hafa sótt fram. "Hérna er mjög hættulegt núna vegna þess að vígamennirnir geta ekkert farið. Þeir dvelja í húsum og bíða eftir því að við komum," sagði Will Porter, korporáll í landgöngusveitum Bandaríkjahers. Yfirstjórn hersveitanna sem réðust inn í Falluja segir 22 bandaríska og fimm íraska hermenn hafa fallið í bardögum en mannfallið sé þó mun meira í röðum vígamanna - um 600 manns. Iyad Allawi, forsætisráðherra Íraks, sagði íraska hermenn hafa handsamað 151 erlendan vígamann. Í gær var dreift upptöku þar sem hryðjuverkaforinginn Abu Musab al-Zarqawi hvatti stuðningsmenn sína í borginni til að halda baráttunni áfram. Íbúar Falluja halda áfram að reyna að flýja borgina. Körlum verður lítið ágengt því hermenn skipa þeim að snúa aftur, einungis konum og börnum er leyft að yfirgefa borgina af ótta við flótta vígamanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×