Sport

FRÍ uggandi yfir Laugardalsvelli

Formaður Frjálsíþróttasambands Íslands er uggandi yfir því að í framtíðarskipulagi Laugardalsvallar er ekki gert ráð fyrir aðstöðu til frjálsíþróttaiðkunar. Ekkert samráð hefur verið haft við sambandið vegna fyrirhugaðra skipulagsbreytinga. Fyrir liggur að milljarður verður settur í að stórbæta aðstöðu á Laugardalsvelli en ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort völlurinn verður áfram ætlaður hvoru, tveggja fótbolta og frjálsíþróttum. Það liggur þó fyrir að þrengt verður að frjálsíþróttaaðstöðunni strax í fyrsta áfanga breytinganna.  Jónas Elíasson, formaður Frjálsíþróttasambands Íslands, segir sambandið hafa talsverðar áhyggjur af þessu því fram hafi komið hjá formanni KSÍ að þetta sé aðeins fyrsti áfangi. Hann vill þess vegna að KSÍ leggi sínar hugmyndir á borðið. Jónas segir Laugardalsvöllinn eina frjálsíþróttavöllinn hér á landi sem uppfylli alþjóðlegar kröfur. Knattspyrnumenn hafa bent á að það myndi til dæmis stórbæta útsýni úr stúku ef hlaupahringurinn hyrfi, en sá munaður gæti reynst dýrkeyptur. Áætlað er að það myndi kosta vel á annan milljarð króna að koma upp viðlíka frjálsíþróttaaðstöðu annars staðar. Þá veltir Jónas því upp hvort ekki væri skynsamlegra að Knattspyrnusambandið kæmi sér upp öðrum velli, eingöngu fyrir fótbolta, og að Laugardalsvöllur verði áfram þjóðarleikvangur fyrir frjálsíþróttir og knattspyrnu. Hann bendir líka á að í Reykjavík séu 30 knattspyrnuvellir en aðeins einn frjálsíþróttavöllur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×