Erlent

Góð niðurstaða

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga er ánægður með úrslit sameiningarkosninganna tveggja sem fram fóru samhliða forsetakosningunum á laugardag. Sameining Akureyrarbæjar og Hríseyjarhrepps var samþykkt með miklum yfirburðum í báðum sveitarfélögum en sameining Austur og Norður Héraðs, Fellahrepps og Fljótsdalshrepps féll hinsvegar á atkvæðum í síðastnefnda hreppnum. "Ég tel að niðurstaða kosninganna sé mjög góð og stuðningurinn við sameiningu var enn meiri en ég átti von á," segir Vilhjálmur. Hann segist búast við nú hefjist viðræður um sameiningu Austur-Héraðs, Norður-Héraðs og Fellahrepps en heimilt er að sameina þau sveitarfélög á grunni samþykktarinnar í kosningunum nú. Spurður um líklegar ástæður þess að Fljótsdælingar höfnuðu sameiningu segir Vilhjálmur líklegt að þar ráði mannvirkjagerð á Kárahnjúkum einhverju. "Ég tel ekki ólíklegt að sú staðreynd að Fljótsdalshreppur á von á töluverðum fasteignagjaldstekjum vegna Kárahnjúkavirkjunar hafi haft áhrif á niðurstöðuna en auðvitað koma þar önnur sjónarmið einnig við sögu." Hann telur þó ekki að þessar væntanlegu tekjur hafi haft áhrif á afstöðu íbúa hinna sveitarfélaganna, þ.e. að þeir hafi samþykkt sameiningu beinlínis vegna fasteignagjaldsteknanna. Sveitarfélögin í landinu eru nú 104 en voru 204 fyrir fjórtán árum. Þau voru hinsvegar 229 þegar þau voru flest. Vilhjálmur býst við að þeim eigi enn eftir að fækka enda skynji íbúar og sveitarstjórnarmenn aukin sóknarfæri í sameiningu, við það styrkist sveitastjórnarstigið og sé betur í stakk búið til að taka við frekari verkefnum frá ríkinu. Hann segir suma hafa rætt um að hægt sé með sæmilega góðu móti að fækka sveitarfélögunum niður í um 40 en það sé ekki heilög tala í hans huga. Aðalatriðið sé að menn sjái þau sóknarfæri sem í sameiningu felast.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×