Erlent

23 látnir í Hillah

Á þriðja tug fórst í sprengjuárásum í borginni Hillah í Írak í gær. Tugir særðust. Svo virðist sem árásum í landinu ætli aldrei að linna. Svo virðist sem tveimur bílum hafi verið ekið upp að aðalmoskunni í bænum Hillah suður af Bagdad, en moskan er kennd við Saddam Hússein. Í bílunum voru sprengjur, sem sprengdar voru með þeim afleiðingum að 23 fórust, flestir þeirra Sjítar sem höfðu verið að bæn eða að versla, en mikið er um verslanir í grennd við moskuna. Ekki færri en 22 særðust. Upphaflega var talið að fleiri hefðu fallið, en síðdegis sögðu talsmenn yfirvalda að oftalið hefði verið. Í morgun hófu íbúar bæjarins handa við að ryðja leifar og rusl af vettvangi, og þeir sem féllu voru bornir til grafar.  Í dag kviknaði svo enn á ný í einni af meginolíuleiðslum Íraks, en ekki er ljóst hvort að um árás var að ræða. Hryðjuverkamenn hafa ítrekað gert árásir á olíuleiðslur og með þeim hætti hamlað uppbyggingu olíuiðnaðar í landinu mjög. Óljóst er með afdrif þriggja tyrkneskra gísla, sem haldið er í landinu. Í gær sendu mannræningjarnir frá sér yfirlýsingu, þar sem þeir hótuðu að afhöfða mennina, kölluðu Tyrkir ekki hersveitir sínar í Írak þegar heim.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×