Sport

Jafntefli í risaslag

Hollendingar og Þjóðverjar, sem hafa margan hildinn háð í gegnum tíðina, skildu jafnir, 1-1, í leik liðanna í D-riðli Evrópumótsins í Portúgal í gærkvöld. Ekki er hægt að segja að leikurinn hafi verið mikið fyrir augað, taugaspennan var mikil og þegar leik var lokið gátu bæði lið verið sátt við stigið. Hollendingar byrjuðu leikinn mun betur, réðu ferðinni fyrstu mínúturnar og pressuðu Þjóðverja stíft án þess þó að ná að skapa sér marktækifæri að ráði. Þjóðverjar komust síðan betur inn í leikinn og náðu forystunni eftir hálftíma með marki frá Torsten Frings beint úr aukaspyrnu utan af kanti. Eftir markið náðu Þjóðverjar yfirrráðum á vellinum og stjórnuðu leiknum. Það var ekki fyrr en Dick Advocaat, þjálfari Hollendinga, skipti framherjanum Pierre van Hooijdonk inn á þegar fimmtán mínútur voru eftir sem Hollendingar vöknuðu til lífsins. Þeir byrjuðu að pressa Þjóðverja stift og uppskáru jöfnunarmark þegar tíu mínútur voru eftir. Andy van der Meyde vann boltann af miklu harðfylgi, sendi boltann á nærstöng þar sem Ruud van Nistelrooy var mættur og skoraði glæsilegt mark úr þröngu færi með þýska varnarmanninn Christian Wörns á bakinu, óverjandi fyrir afmælisbarnið Oliver Kahn, sem hélt upp á 35 ára afmæli sitt í gær. Það sem eftir lifði leiks pressuðu Hollendingar stíft án árangurs og þurftu bæði lið að sætta sig við skiptan hlut. Dietmar Hamann, miðjumaður Þjóðverja, var ósáttur í leikslok. "Við vorum komnir með hreðjatak á Hollendingum en síðan kom þetta jöfnunarmark eins og skrattinn úr sauðarleggnum - frábær afgreiðsla. Jafntefli voru sennilega sanngjörn úrslit en mér fannst við eiga skilið að vinna. Við vorum betri aðilinn og getum nagað okkur í handarbökin fyrir að klára ekki leikinn," sagði Hamann. Ruud van Nistelrooy, hetja Hollendinga, var hins vegar í sjöunda himni eftir leikinn. "Það hefði verið skelfilegt fyrir okkur að tapa leiknum en sem betur fer endaði þetta vel. Við vissum að Þjóðverjar yrðu erfiðir og sýndum karakter með því að berjast áfram og ná jafntefli," sagði van Nistelrooy.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×