Erlent

Stungið upp á Barroso

Lagt verður til að Jose Manuel Durao Barroso, forsætisráðherra Portúgals, verði næsti forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Bertie Ahern, forsætisráðherra Írlands, skýrði frá þessu í gær. Írar fara nú með formennsku í Evrópusambandinu. Gerhard Schröder, kanslari Þýskalands, lýsti skömmu síðar yfir stuðningi Þjóðverja með þessa niðurstöðu. Mikil leit hefur staðið yfir undanfarið að hugsanlegum eftirmanni Romanos Prodis, sem lætur af embætti forseta framkvæmdastjórnarinnar í lok október. Á yngri árum, þegar einræðisherrann Antoniu Salasar réð ríkjum í Portúgal, var Barroso róttækur maóisti sem barðist hatrammlega gegn einræðisstjórninni. Í dag er hann forsætisráðherra íhaldsstjórnar í Portúgal og eindreginn stuðningsmaður stríðsaðgerða Bandaríkjamanna í Írak. Barroso státar sig af því að hafa pólitískt úthald og standa óhræddur við ákvarðanir sínar, þótt sumar hafi verið umdeildar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×