Sport

Eiður í fótspor föður síns

Knattspyrnumaðurinn Eiður Smári Guðjohnsen var í kvöld kjörinn íþróttamaður ársins 2004 af Samtökum íþróttafréttamanna. Þetta er í fyrsta sinn sem Eiður Smári hlýtur þennan titil en hann er fyrsti knattspyrnumaðurinn sem hlýtur hann í sautján ár. Síðasti knattspyrnumaðurinn sem hlaut þennan titil var faðir hans, Arnór Guðjohnsen, en hann hlaut hann árið 1987 eftir frábært tímabil með belgíska liðinu Anderlecht. Eiður Smári átti mjög gott ár með Chelsea og mörk hans áttu þátt í því að liðið hafnaði í öðru sæti í ensku úrvalsdeildinni og komst í undanúrslit Meistaradeildarinnar. Hann var yfirburðamaður í íslenska landsliðinu og skoraði þrjú af fjórum mörkum liðsins í undankeppni EM. Eiður Smári er fimmti knattspyrnumaðurinn sem hlýtur þennan titil en áður höfðu Ásgeir Sigurvinsson, í tvígang, Guðni Kjartansson, Jóhannes Eðvaldsson og Arnór Guðjohnsen fengið þessa virtu viðurkenningu. Eiður Smári tekur við kyndlinum af handknattleiksmanninum Ólafi Stefánssyni en hann varð efstur í kjörinu 2002 og 2003. Eiður Smári var ekki viðstaddur afhendinguna í gær þar sem hann fékk ekki leyfi frá knattspyrnustjóra Chelsea, Jose Mourinho, til að mæta vegna þess gífurlega álags sem er á leikmönnum þessa dagana. Þetta er í fyrsta skipti síðan 1984 sem íþróttamaður árins er ekki viðstaddur kjörið. Eiður Smári og Arnór eru aðrir feðgarnir sem hljóta þessi verðlaun en áður höfðu þeir Vilhjálmur Einarsson og Einar Vilhjálmsson fengið þau.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×