Innlent

Fischer tekur vel í að koma

Þórður Ægir Óskarsson, sendiherra Íslands í Tokyo, fór snemma í morgun að íslenskum tíma í japanska utanríkisráðuneytið og tilkynnti þar um þá ákvörðun íslenskra stjórnvalda að bjóða skákmeistaranum Bobby Fisher dvalarleyfi á Íslandi. Þá tilkynnti Þórður Fisher símleiðis um málið og tók Fisher því vel. Ef til þess kæmi að japönsk stjórnvöld féllust á að hleypa Fischer til Íslands, yrði hann fyrst að fella niður áfrýjunarmál fyrir japönskum rétti þar sem hann óskar þess meðal annars að fá stöðu sem flóttamaður í Japan. Að sögn Þórðar Ægis, í viðtali við fréttastofu Stöðvar 2 í morgun, hafa þó nokkrir alþjóðlegir og japanskir fjölmiðlar spurst fyrir um málið hjá sendiráðinu og hefur það vakið mikla athygli um allan heim, til að mynda á fréttastöðvunum CNN og BBC. Fischer óskaði eftir hæli hér á landi í bréfi til Davíðs Oddssonar, utanríkisráðherra, fyrir um tveimur vikum. Bandarísk yfirvöld hafa óskað eftir því að fá Fischer framseldan til Bandaríkjanna en Japanar segja mögulegt að honum verði í staðinn vísað úr landi og sendur hingað. Venjan er hinsvegar sú að ef mönnum er vísað úr landi, þá er þeim vísað til þess lands sem þeir hafa ríkisfang í, en sem kunnugt er hefur Fischer afsalað sér bandarískum ríkisborgararétti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×