Innlent

Útiloka ekki málshöfðun

Öryrkjabandalagið útilokar ekki að höfðað verði mál fyrir hönd einhverra einstaklinga sem Tryggingastofnun hefur krafið um endurgreiðslu vegna bótagreiðslna í fyrra. Arnþór Helgason, framkvæmdastjóri Öryrkjabandalags Íslands, segir að Tryggingastofnun ríkisins hafi gert alvarleg mistök. Skrifstofa Öryrkjabandalagsins hefur verið undirlögð af fólki síðustu daga sem hefur leitað til bandalagsins vegna kröfugerðar Tryggingastofnunar vegna of mikilla greiðslna. Þriðjungur öryrkja er talinn hafa fengið of miklar bætur vegna ársins 2003 og hefur verið krafinn um endurgreiðslu frá Tryggingastofnun, en kröfurnar geta verið tugir eða hundruð þúsunda þegar verst lætur. Arnþór segir fjölda fólks hafa komið til þess að leita réttar síns á skrifstofu Öryrkjabandalagsins og starfsfólki Öryrkjabandalagsins hafi verið haldið í heljargreipum á meðan. Sett var á laggirnar sérstök nefnd Öryrkjabandalagsins og Tryggingastofnunar til að greiða úr flækjunni en vegna anna starfsmanna stofnunarinnar hefur nefndin ekki enn komið saman. Arnþór segir marga hafa haft samband til þess að krefjast skýringa, en starfsfólk Tryggingastofnunar virðist hins vegar vera illa búið undir að gefa nákvæmar skýringar og hafi jafnvel hreytt ónotum í viðskiptavini. Arnþór segir að Öryrkjabandalagið fallist ekki á neinar endurkröfur Tryggingastofnunar nema í þeim tilvikum þegar um er að ræða mistök lífeyrisþega sjálfra sem hafa þá ekki talið fram tekjur sínar. Oftar sé það hinsvegar stofnunin sjálf sem hafi gert alvarleg mistök. Hann segir Tryggingastofnun eiga að bera skaðann af eigin mistökum í stað þess að koma svona aftan að fólki. Hann segir að skaðabætur vegna vangoldins lífeyris sem eigi rætur að rekja til mistaka löggjafans, eigi ekki að koma til frádráttar lífeyrisgreiðslum eins og sé raunin í fjölda tilvika. Hann útilokar ekki að Öryrkjabandalagið sæki mál fyrir einhverra einstaklinga ef á þurfi að halda. Fyrst þurfi þó að láta reyna á einstök mál fyrir úrskurðarnefnd almannatrygginga. Arnþór segir að Öryrkjabandalagið vilji eiga góð samskipti við Tryggingastofnun, en þetta séu vinnubrögð sem séu fyrir neðan allar hellur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×