Innlent

18 milljónir fyrir teikningar

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra segir mikil verðmæti fólgin í teikningum Sigmunds, sem birst hafa í Morgunblaðinu undanfarin fjörutíu ár. Halldór og Sigmund undirrituðu í dag samning um kaup ríkisins á öllum teikningum listamannsins fyrir átján milljónir króna. Ríkisstjórnin samþykkti fyrir skemmstu, að frumkvæði forsætisráðherra, að kaupa allar myndir Sigmunds, um tíu þúsund talsins, sem birst hafa í Morgunblaðinu. Þetta er meðal annars gert í tilefni af 60 ára afmæli lýðveldisins, en myndir Sigmunds þykja varpa skemmtilegu ljósi á sögu þjóðarinnar. Samningur um kaup ríkisins á myndunum var undirritaður í Vestmannaeyjum, heimabæ Sigmunds. Kaupverðið nemur átján milljónum króna, sem þýðir að ríkið greiðir Sigmund, sem á allan höfundarrétt að myndunum, 1800 krónur fyrir hverja mynd. Forsætisráðherra segir teikningarnar mjög verðmætar. Hann segir verðmætið bæði sögulegt og listrænt. Þarna sjái menn hvernig saga þjóðarinnar hafi verið túlkuð nánast hvern einasta dag í 40 ár. Sigmund hefur lengi verið það kappsmál að koma teikningum sínum fyrir á einum stað og gera þær að þjóðareign og segir Halldór Ásgrímsson stefnt að því myndunum verði komið fyrir í Vestmannaeyjum í framtíðinni. Hann segir hugmyndina að reisa menningarhús og vonandi muni bæjaryfirvöld samþykkja að koma safninu þar fyrir í framtíðinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×