Innlent

Fá nú greiðslu fyrir egg

Konur, sem vilja aðstoða barnlaus pör, geta selt egg úr sér og fengið greiðslu fyrir. Skortur er á eggjum, en árlega þurfa allt að fjörutíu konur hér á landi á eggjagjöf að halda. Tæknifrjóvgunarstofan Art Medica hefur ákveðið að óska eftir eggjum og koma upp lista með eggjagjöfum. Með ákvörðun Art Medica verður í fyrsta skipti markvisst óskað eftir því að fá egg úr konum hér á landi til tæknifrjóvgunar. Ekki verður um eggjabanka að ræða, heldur verða eggjagjafar settir á sérstakan lista hjá stofunni, og þegar par í tæknifrjóvgunarmeðferð vantar egg, verður viðkomandi gjafi sóttur í meðferð. Það þekkist að konur hafi fengið greitt fyrir að gefa egg, en nú þurfa pörin ekki sjálf að leita að eggi, þar sem Art Medica verður milliliður. Skortur hefur verið á eggjum. Guðmundur Arason, kvensjúkdómalæknir, segir að undanfarið hafi margar konur auglýst en ekki fengið eggjagjafa. Áætla megi að um 30-40 konur á ári þurfi á eggjagjöfum að halda, en nú sé orðið við beiðni um 15-20 þeirra. Hann segir að nú faí eggjagjafar borgað fyrir óþægindin sem af meðferðinni hljótist, en hingað til hafa þeir ekkert fengið. Guðmundur segir eggheimtu, eða þegar egg er tekið úr konu, hvorki flókna né tímafreka aðgerð, en hún krefjist þó undirbúnings. Æskilegt sé að eggjagjafar séu á aldrinum 25 til 35 ára, því á þeim aldri séu mestar líkur á góðum eggjum. Eggjagjafarnir verði valdir eftir heilbrigði, aldri og öðrum þáttum sem komi í ljós við viðtal.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×