Innlent

Hægt að sérsníða forvarnarráð

Greina má niðurstöður í rannsókn um vímuefnaneyslu skólanema í Evrópu eftir skólum. Sjá rannsakendur það sem gott tækifæri til að bregðast við vandamálum á réttan hátt í hverju bæjarfélagi. Þóroddur Bjarnason, prófessor við Háskólans á Akureyri, segir að til þess að hægt verði að vinna nánar úr gögnunum eins og áhugi sé fyrir þurfi að huga sérstaklega að því að ekki verði hægt að rekja niðurstöður rannsóknanna til einstaklinga. Til þess að hægt sé að gæta nafnleyndar þátttakenda þurfi fjöldi nemenda í skólum að vera fjörutíu til fimmtíu. Komi í ljós að heill árgangur hafi til dæmis neytt eiturlyfja sé ekki upplýst um niðurstöðurnar vegna rekjanleika þeirra. Fimmtán til sextán ára unglingar hérlendis komu vel út úr rannsókn sem gerð var í 35 Evrópulöndum og kynnt var á þriðjudag. Þeir eru í 31. sæti yfir þá unglinga sem reykt hafa 40 sinnum eða oftar og 30. sæti yfir þá sem hafa drukkið áfengi 40 sinnum eða oftar. Tólf prósent íslensku ungmennanna höfðu notað sniffefni, sem olli áhyggjum. Taka þurfi sérstaklega á því vandamáli. Þórólfur Þórlindsson, prófessor við Háskóla Íslands, sagði við kynningu niðurstaðnanna að samvinna rannsóknarmanna og þeirra sem ynnu að forvörnum fælist í því að rannsóknarmennirnir kæmu nýjustu upplýsingum á framfæri. Það fólk sem ynni að forvörnum kynni greinilega til verka. Það sýndi árangur síðustu ára. Þóroddur segir að þátttakendum rannsóknarinnar hafi verið lofað nafnleynd og hennar verði gætt: "Ef krakkarnir treysta okkur ekki fáum við aldrei framar réttar niðurstöður."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×