Innlent

Fischer fær dvalarleyfi

Stjórnvöld hafa ákveðið að veita Bobby Fischer, fyrrverandi heimsmeistara í skák, dvalarleyfi hér á landi en hann hefur verið í gæsluvarðhaldi í Japan svo mánuðum skiptir. Bandarísk yfirvöld hafa óskað eftir því að fá Fischer framseldan til Bandaríkjanna. Í fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu segir að þetta verði staðfest af Útlendingastofnun fljótlega og að sendiráði Íslands í Japan verði gert að aðstoða Fischer við að komast hingað til lands, óski hann þess. Hrafn Jökulsson, forseti Hróksins, segir þetta stórtíðindi sem muni vekja mikla athygli um allan heim. Hann segir íslensk stjórnvöld með þessu leysa mestu þraut skákheimsins, þ.e. hvernig hægt sé að leysa mál skáksnillingsins Bobby Fischer. Ákvörðunin beri vott um dirfsku og stórhug. Hrafn segist vonast til þess að þetta verði til þess að Fischer losni loks úr hinu ömurlega fangelsi í Japan og geti um frjálst höfuð strokið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×