Innlent

Ekki tillit til jöfnunarsjóðs

Við breytingar lögum um tekjuskatt og eignarskatt var ekki tekið tillit til umsagnar Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þar kom fram að sé tekið mið á þeim forsendum sem frumvarpið byggði á má gera ráð fyrir að árlegar tekjur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga skerðist varanlega um 400 milljónir króna þegar áhrif laganna eru að fullu komin til framkvæmda árið 2007. Þórður Skúlason, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir málinu ekki lokið af þeirra hálfu."Við höfum rætt málið við félagsmálaráðherra og höldum þessu til haga. Það þyrfti að leysa þetta sem fyrst og komast að niðurstöðu að því hvernig sveitarfélögunum verður bættur þessi tekjumissi." Gunnlaugur Júlíusson, sviðstjóri hag- og upplýsingasviðs sambandsins hefur áður sagt að Sambandið reikni með að þetta hafi bara verið mistök, því í gildi sé samkomulag um fjárhag ríkis og sveitarfélaga. Allar breytingar á því samkomulagi hljóti að vera samningsatriði en ekki ákvarðaðar einhliða. Talið er að tekjumissir Jöfnunarsjóðs muni nema um 90 milljónir á næsta ári. Framlög úr jöfnunarsjóði eru rúm 34 prósent tekna sveitarfélaga sem hafa færri en 300 íbúa.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×