Innlent

Nýtt segulómstæki tekið í notkun

Nýtt segulómstæki sem kostar litlar hundrað og fimmtíu milljónir var tekið í notkun á Landspítala háskólasjúkrahúsi í dag. Það kemur í stað þrettán ára gamals tækis og er mun öflugra og snarara í snúningum. Með tækinu opnast ný svið til greiningar sem hafa verið lokuð til þessa. Tækið gefur færi á fjölmörgum nýjungum en ekki síst meiri möguleikum á rannsóknum í öðrum líffærakerfum. Nefna má hjarta í brjóstholi og gallvegi í kviðarholi. Einnig er hægt að gera æðarannsóknir með miklum gæðum án þess að þræða æðalegg inn í æðar fólks. Aukin not eru af tækinu við skoðanir á krabbameinssjúklingum og skoða má allan líkamann á stuttum tíma með sérstökum myndröðum, til skimunar á meinvörpum í krabbameinssjúkum. Hildur Einarsdóttir röntgenlæknir segir tækið mest notað við greiningu á sjúkdómum í heila, taugum, hrygg, hné, liðum og kvið - og reyndar er gagn að því við rannsókn á hvaða líkamshluta sem er. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×