Innlent

Tilgangslaust að auglýsa Fellsmúla

"Þetta var einfaldlega hæsta tilboðið," segir Sigurbjartur Pálsson, oddviti Rangárþings Ytra, um samning um sölu Fiskeldisstöðvarinnar í Fellsmúla. Lögmenn Rangárþings og Ásahrepps gerðu margar athugasemdir við kaupsamninginn við hreppsnefndarmanninn Lúðvík Bergmann og félaga hans Ásgeir Ásmundarson. Meðal annars vegna þess að hrepparnir ætluðu að taka við óverðtryggðu skuldabréf með 7,1% vöxtum til 20 ára sem greiðslu fyrir kaupverðið upp á 21,1 milljón króna. Einnig vegna þess að óskýrt væri með hitaveituréttindi. Sigurbjartur segir þetta byggt á misskilningi sem nú hafi nú verið eytt með sérstökum viðauka. Ekki hafi þó verið gengið formlega frá kaupunum, jafnvel þótt Lúðvík og Ásgeir séu teknir við rekstrinum. "Það eru ýmsir þættir sem greiða þar úr þannig að málið er í biðstöðu eins og er," segir Sigurbjartur. Lögmenn hreppanna gagnrýndu að fjárhagsstaða kaupendanna væri ekki könnuð. Lúðvík hafi verið í vanskilum með 13 milljónir króna í KB banka. "Að sjálfsögðu könnuðum við þetta. Vandi Lúðvíks var hins vegar tilkominn vegna gjaldþrots KÁ. Við höfum staðreynt hjá viðskiptabanka Lúðvíks að hann er langt kominn með að vinna sig út úr þeim vanda," segir Sigurbjartur. Heimir Hafsteinsson, sem situr fyrir Ó-listann í hreppsnefnd Rangárþings Ytra, telur kaupverðið of lágt og að frumskilyrði hafi verið að auglýsa söluna. "Þarna er til dæmis verið að framselja hitaveituréttindi hitaveituréttindi sem ein og sér gera meira en að borga upp þetta skuldabréf. Það er verið að gefa eignir fiskeldisstöðvarinnar," segir Heimir. Sigurbjartur segir að sölutekjur af heitu vatni frá Fellsmúla séu innan við ein milljón króna á ári. Þá hafi menn innan fiskeldisgeirans lengi vitað að til stæði að selja stöðin. Einnig hafi verið mikilvægt atriði að nýr rekstraraðili héldi áfram viðskiptum um seiðaeldi fyrir veiðivötn á afréttum. "Það höfðu sex aðilar sett sig í samband við okkur út af sölu stöðvarinnar. Við mátum það þannig að það þjónaði ekki tilgangi að auglýsa," segir hann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×