Innlent

Dregur úr reykingum og drykkju

Dregið hefur úr reykingum og drykkju ungmenna hér á landi, öfugt við þá þróun sem orðið hefur í öðrum löndum álfunnar. Lýðheilsustöð boðaði til kynningarfundar fyrir hádegi þar sem kynntar voru niðurstöður skýrslu á vegum Evrópuráðsins um vímuefnaneyslu evrópskra skólanema. Ásamt Lýðheilsustöð komu rannsóknarmiðstöðin Rannsóknir og greining og Háskólinn á Akureyri að kynningunni. Skýrslan er byggð á ítarlegum rannsóknum sem gerðar voru meðal rúmlega 102 þúsund skólanema í 35 löndum á árunum 1995, 1999 og 2003 og náði hún til rúmlega 3300 nemenda í tíunda bekk íslenskra grunnskóla. Á þriðja hundrað evrópskra vísindamanna í löndunum stóðu að rannsóknunum. Samkvæmt skýrslunni hafa orðið umtalsverðar breytingar á vímuefnaneyslu ungs fólks í Evrópu á undanförnum átta árum og vímuefnaneysla íslenskra unglinga hefur þróast með nokkrum öðrum hætti en annars staðar í álfunni. Helsta breytingin er sú að reykingar hafa minnkað hér á landi á meðan þær hafa staðið í stað eða aukist í öðrum Evrópulöndum. Þóroddur Bjarnason, prófessor við Háskólann á Akureyri, segir að íslenskir unglingar hafi hingað til verið í miðjum hópi yfir reykingar evrópskra unglinga en séu nú neðstir þar sem þeir reyki minnst. Ekki hefur orðið eins mikil minnkun í áfengisneyslu en þó hefur dregið aðeins úr henni á meðan neyslan hefur aukist á heimsvísu. Þóroddur þakkar þetta samstilltu átaki foreldra, lögreglu og skóla. Notkun annarra vímuefna hjá íslenskum unglingum stendur hins vegar í stað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×