Innlent

Ellefta stærsta fiskveiðiþjóðin

Íslendingar voru ellefta stærsta fiskveiðiþjóðin í heiminum árið 2002 og önnur stærsta á Norðaustur-Atlantshafi, samkvæmt samantekt Hagstofu Íslands um heimsaflann 2002. Í samantektinni kemur fram að heimsaflinn árið 2002 hafi vaxið lítilsháttar á milli áranna 2001 og 2002 og var rúmlega 93 milljónir tonna. Alls reyndist fiskafli tuttugu og einnar þjóðar meiri en ein milljón tonna á árinu 2002 og nemur samanlagður afli þesara ríkja ríflega 72 milljónum tonna, sem eru rúmlega 77 prósent heimsaflans. Kínverjar voru stærsta fiskveiðiþjóðin á árinu, með 16,6 milljónir tonna, en næstir þeim komu Perúmenn með tæplega 9 milljónir tonna. Þar á eftir komu þjóðir á borð við Bandaríkjamenn, Japana, Indverja, Rússa og Norðmenn sem vermdu tíunda sætið með tæplega þrjár milljónir tonna af heimsaflanum. Íslendingar voru í ellefta sæti heimslistans með 2,1 milljón tonna, eða 2,3 prósent heimsaflans, og þýðir það að þjóðin færist upp um eitt sæti frá því árið 2001. Ísland var í öðru sæti veiðiþjóða á Norðaustur-Atlantshafi og í ellefta sæti veiðiþjóða á Norðvestur-Atlantshafi. Danir voru í sextánda sæti og á eftir þeim komu meðal annars Mjanmar, Malasía, Tævan og Kanada. Mest var veitt í Kyrrahafinu árið 2002 og stærsta einstaka fisktegundin var perúansjósa en alls veiddust 9,7 milljónir tonna af tegundinni, eða 10,4 prósent heimsaflans. Af Alaska-ufsa veiddust 2,7 milljónir tonna og af randatúnfiski veiddust tvær milljónir tonna. Aðrar fisktegundir náðu ekki tveggja milljóna tonna markinu. Af þeim fisktegundum sem Íslendingar veiða þá var heimsafli loðnu tæplega tvær milljónir tonna, af Atlantshafssíld veiddust 1,9 milljónir og af þorski veiddust 890 þúsund tonn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×