Innlent

Skattsvik upp á 35 milljarða

Starfshópur sem kannaði umfang skattsvika hérlendis telur að tekjutap ríkis og sveitarfélaga nemi allt að 35 milljörðum á ári. Sú starfsemi sem mest er hætt við undanskotum er byggingastarfsemi og mannvirkjagerð, veitingarekstur og hverskyns persónuleg þjónusta. Geir Harde fjármálaráðherra skipaði nefndina í framhaldi af ályktun Alþingis um að gera bæri úttekt á umfangi skattsvika og svartri atvinnustarfsemi. Niðurstaðan er sú að skattsvikin nemi 8,5-11,5% af heildarskattekjum þjóðarinnar eða um 25 til 35 milljörðum. Nefndin kemst að þeirri niðurstöðu að skattsvik í formi vamframtalinna tekna hafi minnkað og skil á virðisaukaskatti færst til betri vegar. Skipulögð skattsvik hafa hinsvegar aukist að mati nefndarinnar og nýjar aðferðir til skattsvika hafa bæst við þær sem fyrir eru, einkum í gegnum erlend samskipti. Ástæður skattsvikanna eru margvíslegar að mati nefndarinnar. Aðstæður hafi til að mynda breyst í atvinnu og viðskiptalífi og ný tækifæri til skattsvika orðið til. Skattalöggjöfin sé götótt og ráðgjöf um hvernig megi skjóta fjármunum undan skatti hafi aukist. Nefndin leggur til að lögum verði breytt í því skyni að koma í veg fyrir að skattalöggjöfin sé brotin með því að íslenskir framteljendur geti nýtt sér skattaparadísir hvers konar og ríki þar sem skattar eru lágir til að koma sér undan því að greiða skatta. Þá þurfa skattayfirvöld að hafa greiðari aðgang að upplýsingum, efla þarf skattaeftirlit og skattarannsóknir og bæta starfsskilyrði skattayfirvalda. Þá vill nefndin að ábyrgð svokallaðra ráðgjafa sem standi að vafasamri eða óábyrgri ráðgjöf í skattamálum, rangfræðu bókhaldi eða rangri framtalsgerð verði aukin og eins að persónuleg ábyrgð eigenda og forsvarsmanna fyrirtækja vegna skattalagabrota fyrirtækjanna verði skýrð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×