Innlent

Konukot opnað

Konukot, næturheimili fyrir heimilislausar konur var formlega opnað í dag á áttatíu ára afmæli Rauða krossins. Talið er að tuttugu til þrjátíu konur í Reykjavík eigi hvergi höfði sínu að halla í borginni. Í Konukoti fá þær athvarf á nóttunni og geta notað hreinlætis- og þvottaaðstöðu. 8-10 konur í einu geta fengið inni í Konukoti. Heimilið er til húsa í Eskihlíð 2 til 4, í sama húsi og Fjölskylduhjálp Íslands. Jónheiður Pálmey Halldórsdóttir einn aðstandenda hússins segist binda miklar vonir við starfsemina. Hún segir að það hafi gengið illa að finna fjármagn til að byrja með. Þangað til að konur í Rauða Krossinum, sem haft hafi sömu hugmyndir í langan tíma hafi komið að málinu. Jónheiður segir að heimilslausar konur eigi margvíslegan bakgrunn, þarna séu konur með skólamenntun, mæður og barnungar stúlkur. Af einhverjum ástæðum hafi þessar konur lent á götunni og mæti alls staðar lokuðum dyrum. Þær séu hvergi velkomnar lengur. Við Þingholtsstræti í Reykjavík hefur lengi verið rekið næturskýli fyrir karla en konur hafa verið tregar til að leita þangað. Jónheiður segir að þær hafi í mörgum tilfellum frekar verið tilbúnar til að sofa á götunni þegar barirnir loki á næturnar. Þær geti nú farið í sturtu, fengið hrein föt og fengið að borða. Þeim sem muni vinna í Konukoti sé sko alls ekki sama um örlög þessara kvenna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×