Innlent

Bændur ósáttir

Það var kurr í mörgum bændum þegar Óbyggðanefnd kvað, í dag, upp úrskurði í níu málum sveitarfélaga í Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu. Bændur eru yfir höfuð óánægðir með það sem þeir líta á sem tilraunir ríkisins til þess að sölsa undir sig jarðir þeirra. Þeir sem komu í Þjóðmenningarhús í dag, til þess að hlýða á 9 úrskurði voru sumir ansi þungir á brún, þegar upp var staðið, misjafnlega þó. Þórsmerkurbændum þóttu þeir missa ansi mikið, og svo var um fleiri. Guðmundur Viðarsson, bóndi að Skálakoti, segir að menn hafi ætíð talið að um eignarlönd hafi verið að ræða og menn hafi borgað af þeim skatta og skuldir eins og um eign væri að ræða í fleiri ár. Aðrir bændur, svo sem í Fljótshverfi, vörpuðu þó öndinni léttara, þegar þeir sáu niðurstöðurnar. Menn voru þó ekki sérlega áfjáðir að tjá sig, vildu fá ráðrúm til þess að skoða málið betur, enda er það mikið og flókið. Þó mátti á mönnum heyra að þetta myndi í einhverjum tilfellum enda í logandi málaferlum og ekki bara af hálfu bænda, því lögfróðir menn sem þarna voru töldu að ríkið myndi ekki í öllum tilfellum una við sitt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×