Innlent

Eigendur sjávarjarða vilja fiska

Samtök eigenda sjávarjarða ætla að stefna ríkinu til að fá aftur útróðrarrétt. Ómar Antonsson, formaður samtakanna, segir að eigendur sjávarjarða hafi haft þennan rétt frá ómunatíð og hafi meðal annars greitt af því fasteignagjöld. Hann segir að ríkið eigi líka að virða eignarrétt þessara jarðeigenda. Svokölluð netlög nái 115 metra á haf út og það sé þeirra einkaeign. Nú sé þeim hins vegar meinað að veiða þar vegna kvótakerfisins og rétturinn hafi verið afhentur öðrum. Ómar segir að landsfundir stjórnarflokkanna hafi samþykkt að vinna að þessum rétti sjávarjarða en ráðherrar þessara flokka neiti að fylgja stefnu eigin flokka. Þeir viti hvernig þeir eigi að snúa sér í málinu þar sem þeir séu búnir að afhenda útvegsmönnum þennan rétt. Í apríl 2002 sagði Ómar í fjölmiðlum að samtökin ætluðu að höfða mál gegn ríkinu. Hann segir að ákvörðun um þetta hafi dregist vegna þess að lögfræðingur hafi verið fenginn til að skoða málið vandlega. Síðan hafi bréf verið sent sjávarútvegsráðherra en án árangurs. Því sé ekkert annað að gera í stöðunni nú en að fara fyrir dómstóla.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×