Innlent

Bandaríkjamönnum fækkar á Íslandi

Óvenju hátt gengi krónunnar gagnvart dollar er þegar farið að draga úr heimsóknum bandaríkjamanna hingað til lands, enda þykir bandaríkjamönnum verðlagið á íslandi vera orðið óheyrulega hátt. Þetta segir Steinn Logi Björnsson sölu- og markaðsstjóri Icelandair. Bandarískum ferðamönnum hefur fjölgað hlutfallslega meira hér á landi en í nágrannalöndunum undanfarin misseri, eða eftir að Bandaríkjamenn fóru aftur að ferðast til Evrópu eftir áfallið 11. september 2001. Steinn Logi segir að strax í haust hafi orðið vart við bakslag og nú bætist við óvenju sterk staða krónunnar þannig að dollarinn hefur lækkað meira gagnvart henni en mörgum örðum gjaldmiðlum. Bandaríkjamenn skilji til dæmis ekki með nokkru móti að eitt bjórglas á veitingastað geti kostað átta til níu dollara. En lækkun dollars hefur líka þær hliðar að eldsneytisverð fer nú lækkandi svo sú spurning vaknar hvort ekki hylli þá undir lækkun á flugfargjöldum. Steinn Logi segir að olíuverðið sé hins vegar í sögulegu hámarki ennþá þó að dollarinn hafi lækkað undanfarið og því hafi Icelandair greitt mun meira í bensínkostnað í fyrra en árið þar á undan.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×