Innlent

Nýr matfiskur við strendur Íslands

Nýr matfiskur af kolaætt er kominn að ströndum Íslands. Hann heldur sig mest á grunnsævi og virðist kunna best við sig við ósa Ölfusár. Sumir kalla þennan fisk „ósalúru“ vegna þess að hann þrífst vel í árósum. Fyrir áttatíu árum gaf Bjarni Sæmundsson hins vegar honum nafnið „flúndra“ og verður því haldið hér. Flúndrunnar varð fyrst vart þegar hún veiddist í silunganet við Ölfusárósa árið 1999. Síðan hefur hún víða komið upp í dragnót með suðurströndinni, allt frá Höfn í Hornafirði og vestur að Mýrum, í Borgarfirði, upp á Snæfellsnes og allt til Breiðafjarðar. Flúndran finnst víða við strendur Evrópu. Hún er grunnsævisfiskur sem fer mest á um hundrað metra dýpi. Hún er oft í kringum 30-40 sentímetrar að lengd en getur mest orðið um 60 sentímetrar. Enginn veit af hverju hún er allt í einu komin hingað til lands en Veiðimálastofnun veltir því fyrir sér hvort það geti verið vegna breytinga á veðurfari. Hún er alla vega komin til þess að vera, enda farin að hrygna hér. Sem fyrr segir er flúndran ágætis matfiskur en hún verður þó ekki algeng á borðum landsmanna í bráð. Það veiðist aðeins stöku fiskur í dag og það tekur mörg ár að byggja upp veiðanlegan stofn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×