Innlent

Ekki grunaður um neitt

Ungur maður hefur fengið réttarstöðu grunaðs manns vegna lögreglurannsóknar á eldsvoðanum á Sauðárkróki á laugardaginn þar sem einn maður fórst. Yfirlögregluþjónn á Sauðárkróki tekur þó fram að umræddur maður sé ekki grunaður um eitt eða neitt. Maðurinn er einn af þeim fjórum sem voru í húsinu þegar eldurinn kom upp og var sótugur á vettvangi þegar lögregla kom að, en ber við minnisleysi vegna ölvunar. Einnig var hann talinn í losti eftir atburðinn. Björn Mikaelsson, yfirlögregluþjónn á Sauðárkróki, segir að ekki megi misskilja að hann hafi fengið réttarstöðu grunaðs manns, heldur hafi lögreglunni borið að gera svo til að brjóta ekki á rétti mannsins. Þá er komið í ljós að hann stökk ekki fram af svölum á efri hæð, eins og talið var í fyrstu, heldur hafði hann sofnað í stofunni þar sem eldurinn kom upp en enginn veit hvernig eða hvenær hann komst út. Björn tekur fram að umræddur maður er ekki grunaður um eitt eða neitt og hafi honum verið sleppt að yfirheyrslu lokinni, en verði ef til vill yfirheyrður aftur. Meðal þess sem verið er að rannsaka er hvort eitthvað eldfimt hafi verið í stofunni því þar magnaðist eldur mjög hratt, eins og komið er fram. Rannsóknarlögreglumenn úr Reykjavík luku störfum á vettvangi í gær og er henni nú meðal annars haldið áfram á efnafræðistofum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×