Innlent

Ekki enn vitað um smitleiðina

Ekki er enn vitað hvernig miltisbrandur barst í hrossin sem drápust á Sjónarhóli á Vatnsleysuströnd. Hræin verða brennd í dag. Starfsmenn frá embætti yfirdýralæknis hafa verið að taka sýni af vatni á jörð Sjónarhóls og verða þau notuð til þess að finna hvar miltisbrandurinn átti upptök sín. Á þessari stundu er ekkert um það vitað. Búið er að hlaða mikinn bálköst um hræin af hrossunum fjórum og verða þau brennd í dag, líklega nú í hádeginu ef veður leyfir. Níu manns sem höfðu umgengist hrossin hafa fengið fyrirbyggjandi meðferð og kennir enginn sér meins. Miltisbrandur er bráð baktería sem oftast veldur dauða. Öll dýr með heitt blóð geta fengið þessa bakteríu, þar með talin mannskepnan. Smit verður þó yfirleitt aðeins með því að sýkt dýr eru meðhöndluð. Smit milli dýra eru afskaplega sjaldgæf og sjúkdómurinn smitar ekki manna í milli. Sigurður Örn Hansson aðstoðaryfirdýralæknir sagði í samtali við fréttastofuna að engum stafaði hætta af þessu lengur. Öll tæki sem eru notuð eru hreinsuð á eftir. Skurðgrafa var notuð við að urða fyrsta hræið, áður en vitneskja lá fyrir um að dauðaorsökin hefði verið miltisbrandur. Farið var með hana í Þingvallasveit og mun dýralæknisembættið hafa upp á henni og hreinsa hana.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×