Innlent

Lántökur heimilanna aukast um 100%

Lántökur heimilanna í erlendum gjaldeyri hafa aukist um hundrað prósent á tveimur mánuðum eftir að bankarnir fóru að bjóða húsnæðislán. Lækkun krónunnar og hækkun á erlendum vöxtum gæti því aukið greiðslubyrði þeirra óbærilega. Þetta kemur meðal annars fram í skýrslu sem KB kynnti í morgun og ber heitið „Hvaða máli skiptir krónan?“ Þar segir að flest bendi til þess að lántaka bankanna erlendis til að endurlána hér sé ein helsta orsök hækkunar krónunnar þegar til skamms tíma sé litið. Varðandi lántökur heimilanna í erlendum gjaldeyri við núverandi ástand er bent á að krónan sé óvenju hátt skráð og að erlendir vextir séu óvenju lágir um þessar mundir. Með öðrum orðum, það megi vænta þess í einhverri framtíð að krónan lækki og að erlendir vextir hækki, en við þá þróun eykst skuldabyrði heimilanna verulega. Ef dæmi er tekið af fjölskyldu sem tekur tíu milljóna króna lán núna á 4,5% vöxtum má búast við að meðalvextir af láninu verði til langs tíma litið 7,2%, en ekki 4,2%. Afborganir hækki sem sagt um 19 þúsund krónur á mánuði. Hér er reiknað með óbreyttu gengi krónunnar en ef hún lækkar líka hækka afborganirnar enn, og því meira sem krónan lækkar meira.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×