Innlent

Hringveginn norður fyrir Selfoss

Gert er ráð fyrir að þjóðvegurinn í gegnum Selfoss verði færður norður fyrir bæinn. Vegagerðinni hefur verið falið að veita umsögn um legu hans þar sem tvær leiðir koma til greina. Í báðum tillögum er gert ráð fyrir að vegurinn verði færður til norðurs. Einar Guðni Njálsson, bæjarstjóri Árborgar, segir skiptar skoðanir um málið í Árborg, enda búi um 6.500 manns í sveitarfélaginu. Auk þess sé hugmyndin á frumstigi og ekki komin á vegaáætlun. Hann segir að starfandi sé vinnuhópur á vegum sveitarfélagsins og Vegagerðarinnar þar sem komist verði að niðurstöðu um málið í sátt. "Ég held að umferð og verslun í bænum minnki ekki við þetta," segir Einar. "Hér er mikil og öflug þjónusta sem fólk sækir í, meðal annars sumarbústaðaeigendur. Við þurfum bara að tryggja gott aðgengi að bænum ef hringvegurinn verður færður og þá heldur sveitarfélagið áfram að vera miðstöð Suðurlands."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×