Sport

Heiðar hetja Watford

Heiðar Helguson var hetja Watford í kvöld þegar liðið tryggði sér sæti í undanúrslitum ensku deildarbikarkeppninnar í knattspyrnu. Hann skoraði tvö fyrstu mörk liðsins í öruggum 3-0 sigri á úrvalsdeildarliði Portsmouth í 8 liða úrslitunum.  Fyrra mark Heiðars kom á 24. mínútu og hið síðara á 57. mínútu. Brynjar Björn Gunnarsson var eins og Heiðar í byrjunarliði Watford en hann fór meiddur út af í hálfleik. Þá vann Chelsea nauman 1-2 útisigur á Fulham þar sem Frank Lampard skoraði sigurmarkið á 88. mínútu. Damien Duff kom Chelsea yfir en Brian McBride jafnaði á 74. mínútu. Eiður Smári Guðjohnsen kom inn á af varamannabekk Chelsea á 58. mínútu fyrir Didier Drogba sem er nýstiginn upp úr meiðslum. Seinni tveir leikirnir í 8 liða úrslitunum fara fram annað kvöld og er um tvo stórleiki að ræða. Man Utd tekur á móti Arsenal og Tottenham  fær  Liverpool í heimsókn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×