Sport

Crystal Palace á eftir Heiðari

Fram kemur á almenna stuðningsmanna-netmiðlinum fansfc.com í dag mánudag að knattspyrnumaðurinn dalvíski, Heiðar Helguson, sé á innkaupalista enska úrvalsdeildarliðsins Crystal Palace fyrir janúarglugga félagaskiptamarkaðarins. Á netmiðlinum kemur fram að knattspyrnustjóri Palace, Ian Dowie, vilji ólmur fá annan sóknarmann til að stilla upp með Andy Johnson í framlínunni þar sem aðrir sóknarmenn Palace séu einfaldlega ekki að finna skotskóna sína. Johnson er hins vegar sjöundi markahæsti leikmaður úrvalsdeildarinnar með 9 mörk. Heiðar sem er orðinn 27 ára hefur hins vegar verið í banastuði með Watford í ensku Championship deildinni undanfarið þrátt fyrir erfiða byrjun á tímabilinu. Hann hefur skorað 7 mörk í 17 leikjum í deildinni en hann hefur samtals skorað 52 mörk síðan hann kom til Watford frá Lilleström í janúar árið 2000. Talið er að Dowie muni gera Watford tilboð í Heiðar þegar félagaskiptaglugginn opnar 1. janúar n.k. en líkur má að því leiða að kaupverð á leikmanni eins og Heiðari gæti legið í kringum eina milljón punda sem nemur 124 milljónum íslenskra króna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×