Innlent

Elri gæti komið í stað lúpínu

Síðustu tvo áratugina hafa verið gerðar tilraunir hér á landi með notkun elris í landgræðslu og skógrækt. Elri er trjátegund sem hefur svipaða eiginleika og lúpína, en á rótum beggja eru baktería sem bindur köfnunarefni úr andrúmsloftinu. Báðar tegundir eru harðgerar og hafa verið notaðar til að græða upp land þar sem næringarefni eru af skornum skammti í jarðvegi. Þó svo að elrið sé innflutt svipar því mjög til birkis og sker sig því ekki jafn mikið úr umhverfinu og lúpínan. Því er talið að elri kunni að hugnast einhverjum betur til uppgræðslu á sumum svæðum svo sem þar sem verið er að rækta upp sumarbústaðalendur. "Elri er með bakteríur af Frankíu-tegund á rótum sem binda köfnunarefni úr andrúmsloftinu, sem er nákvæmlega sama virkni og á rótum lúpínu," segir Hreinn Óskarsson, skógarvörður Skógræktar ríkisins á Suðurlandi. "Í heimkynnum sínum eru þetta tegundir sem ná fyrstar fótfestu þar sem land hefur skemmst í skriðum, áraurum, eða einhverju slíku, ásamt auðvitað lúpínu og fleiri köfnunarefnissmitandi jurtum. Svo koma hinar tegundirnar á eftir þegar búið er að bæta jarðveginn. Elri er þannig eins og nokkurs konar köfnunarefnis- eða áburðarverksmiðja." Hreinn segir að fjöldi tegunda elris séu til, svo sem sitkaelri, gráelri, blæelri, kjarrelri og fleiri til. "Margar þessara tegunda þrífast vel hér og getur farið inn á rýrt land. Þær þrífast samt best þar sem grunnvatn er hátt. Á mjög þurrum melum eiga þær oft erfitt fyrstu árin. Á slíkum svæðum er lúpínan seigari," segir Hreinn, en telur að elri kunni að henta betur en lúpína á stöðum á borð við Skógasand þar sem settar voru upp stíflur og stutt er niður í vatn. Hreinn telur tæpast að útbreiðsla elris geti orðið jafn mikil og lúpínu, því elrið beri litla köngla sem borist geti með vindi um lengri veg, meðan lúpínan fari stutt og dreifi sér með vatni eða slíku. "Elri er hins vegar ekki mikið gróðursett, enn sem komið er. Það hefur gengið erfiðlega að rækta þetta vegna vandamála sem upp hafa komið við að smita ræturnar bakteríunni. En ef fólk vill ekki fá lúpínuna inn getur það svo sem prófað elri, haustlitirnir eru svona gulleitir, svipaðir og hjá birkinu," segir Hreinn.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.