Sport

Nash erfiður gömlu félögunum

Steve Nash sneri aftur til Dallas í NBA-deildinni í fyrrinótt með nýju félögum sínum í Phoenix Suns og hafði sigur 107-101 í hörkuleik. Nash átti fínan leik, skoraði 17 stig og gaf heilar 18 stoðsendingar þótt það hafi reyndar kostað hann það að tapa 10 boltum. Nash spilaði Amare Stoudemire upp hvað eftir annað og endaði hann með 34 stig í þessum leik en sá átti afmæli og fagnaði sínu 22. aldursári í leiknum. "Ég get ekki munað eftir tilfinningaþrungnari leik en einmitt þessum," sagði Nash eftir leikinn. "Það féllu engin tár en ég var svo sannarlega stressaður. Það var bara skiljanlegt enda á maður margar minningar héðan," sagði Nash en Jón Arnór Stefánsson var eins konar lærlingur hjá þessum snjalla kanadíska leikstjórnanda hjá Dallas í fyrravetur. Nash, sem gaf 17 stoðsendingar í sigri á Cleveland í framlengingu á dögunum, var aðeins einni stoðsendingu frá sínu persónulega meti. Nash sagði alla töpuðu boltanna vera afleiðing af því að hann sé að venjast liðinu. "Þeir eru að læra að spila með mér og ég er að læra að spila með þeim eins og sést vel á þessum 10 töpuðu boltum," sagði Nash, sem hóf ferilinn með Phoenix á sínum tíma en er þekktastur fyrir árin sem sem hann spilaði með Dallas Mavericks. Nash var með lausan samning við Dallas í sumar og vildi vera áfram í herbúðum Mavericks en tók á endanum miklu betra tilboði frá Suns. Nash þakkaði móttökurnar sem hann fékk í Dallas því í stað þess að púa á hann í hvert sinn sem hann fékk boltann tóku heimamenn vel á móti honum og á pöllunum mátti sjá skilti eins og "Takk, Steve" og "Velkomin aftur, Nash" og það voru einnig margir á pöllunum í Dallas-búningi merktum honum. "Það er ótrúleg tilfinning að finna fyrir svona miklum stuðningi á þessari erfiðu stundu," sagði Nash, sem er með 15,3 stig og 10,9 stoðsendingar að meðaltali í fyrstu sjö leikjum sínum með Phoenix, sem eru bæði hærri tölur en hann var með hjá Dallas í fyrra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×