Sport

Hugmyndir um skautahöll í Firðinum

"Það hefur ekkert verið ákveðið í þessum efnum en þetta er vissulega nokkuð sem við erum að skoða," segir Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði. Hafnarfjörður er einn þeirra staða þar sem áhugi fer mjög vaxandi á skautaíþróttum og hugmyndir hafa verið uppi um að reisa þar næstu skautahöll landsins. Lúðvík segir að þrátt fyrir að bæjaryfirvöld séu sér vitandi um talsverðan áhuga meðal almennings í bænum hafi enn sem komið er ekki verið stofnað formlegt skautafélag. "Það er stundum undanfari þess að sveitarfélög fari út í kostnaðarsamar aðgerðir á borð við að reisa skautahöll að áhuginn sé sannanlegur í bænum og þó að ég viti vel af miklum áhuga hefur mér vitandi enginn stofnað íshokkí- eða skautafélag enn sem komið er." Lúðvík segir að bærinn muni skoða alla kosti í framtíðinni og hafi átt í viðræðum við ýmsa hvað það varðar. "Framtíðin er sú að bærinn komi aðeins að litlu leyti að fjármögnun íþróttamannvirkja en kaupi þess í stað tíma af þeim sem húsið byggir. Ég fullyrði að allt slíkt yrði skoðað með opnum huga en að öðru leyti eru þessar hugmyndir í startholunum."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×