Sport

Fín frumsýning

Nýtt og lítt reynt íslenskt handboltalandslið sýndi fína takta gegn Evrópumeisturum Þýskalands í fyrsta leik hins nýráðna landsliðsþjálfara, Viggó Sigurðssonar. Liðin mættust í World Cup í Svíþjóð og þrátt fyrir mikla baráttu og ágætt spil tókst íslenska liðinu ekki að ná stigi úr leiknum sem tapaðist með eins marks mun, 29-28. Ísland komst yfir 1-0 en eftir það tóku Þjóðverjar öll völd á vellinum. Þeir leiddu með þrem til fjórum mörkum nánast allan hálfleikinn en íslenska liðinu tókst að minnka muninn í tvö mörk, 13-15, fyrir hlé. Íslensku strákarnir mættu grimmir í síðari hálfleik, héldu áfram að þjarma að Þjóðverjum og náðu forystu, 21-20. Þjóðverjar svöruðu með þrem mörkum, Ísland jafnaði, 23-23, en eftir það tóku Þjóðverjar yfirhöndina á ný og sigruðu með eins marks mun eins og áður segir. Það var margt jákvætt í leik íslenska liðsins í gær. Nýr og framsækinn varnarleikur gekk ágætlega og fór batnandi eftir því sem leið á leikinn. Viggó er klárlega með mannskap til þess að leysa þennan varnarleik með sóma og er ánægjulegt að sjá íslenska liðið spila eitthvað annað en 6/0 vörn. Sóknarleikurinn var nokkuð góður en tæknifeilarnir frægu eru enn við lýði og þeir reyndust dýrir í þessum leik. Ferskur blær einkenndi leik liðsins og íslenska landsliðið má svo sannarlega við ferskum vindum eftir slakt gengi og þunglamalegan leik í síðustu mótum. Róbert Gunnarsson fór á kostum í leiknum og sýndi svo ekki verður um villst að hann er orðinn leikmaður í heimsklassa. Sigfús Sigurðsson á ærið verkefni fyrir höndum að slá hann út úr liðinu. Það var áberandi í leiknum hversu mikið Róberti hefur farið fram sem varnarmanni og það er mjög jákvætt fyrir liðið. Markús Máni Michaelsson og Einar Hólmgeirsson hafa greinilega haft gott af því að fara til Þýskalands en þeir sýndu fína takta sem og Logi Geirsson. Markvarslan var ágæt en ekki meira en það. Dagur Sigurðsson er undir smásjá enda verið slakur í síðustu mótum. Hann hafði lítið fram að færa í leiknum sem og Garcia sem var átakanlega slakur. Viggó Sigurðsson landsliðsþjálfari var frekar sáttur þegar Fréttablaðið náði tali af honum eftir leikinn. "Ég er þokkalega sáttur enda margt jákvætt í leiknum. Við féllum aftur á móti á því að gera of marga tæknifeila og við gáfum líka of mörg ódýr mörk þegar við vorum seinir að skila okkur til baka. Vörnin gekk vel á köflum sem var ánægjulegt að sjá. Ég lagði upp með fyrir leikinn að menn sýndu leikgleði og baráttu og það var ekki hægt að kvarta yfir því í leiknum," sagði Viggó Sigurðsson. henry@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×