Sport

Einu höggi frá draumnum

Kylfingurinn Birgir Leifur Hafþórsson var einu höggi frá því að komast á Evrópumótaröðina en hann lauk keppni á úrtökumótinu á Spáni í gær. Árangur hans á úrtökumótinu gefur honum engu að síður keppnisrétt á átta mótum á Evrópumótaröðinni sem og fullan keppnisrétt á áskorendamótaröðinni. "Þetta er búið að taka mikið á og ég er frekar þreyttur," sagði Birgir Leifur við Fréttablaðið í gær. Skal engan undra að hann hafi verið þreyttur enda búinn að leika sex golfhringi undir miklu álagi en hann spilaði síðasta hringinn á 74 höggum eða tveim yfir pari. Eftir frábæra hringi á öðrum og þriðja degi, sem hann spilaði á 69 höggum, fór allt úrskeiðis á fjórða degi en þá kom Birgir Leifur í hús á 80 höggum. Sá hringur reyndist ansi dýrmætur þegar upp var staðið. Engu að síður er árangur Birgis Leifs glæsilegur og hann á betri möguleika á að komast alla leið næst þar sem hann hefur fullan keppnisrétt á áskorendamótaröðinni. "Ég er búinn að opna dyr sem áður voru lokaðar. Ég á mikið inni og vonandi tekst mér að komast alla leið á næstu tveim árum," sagði Birgir Leifur Hafþórsson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×