Sport

Uppnám vegna stórleiks á Spáni

Svo gæti farið að á annan tug milljóna manna á Spáni missi af einum stærsta knattspyrnuleik ársins þar í landi þegar Barcelona tekur á móti Real Madrid á laugardagskvöldið n.k. Deilur á milli rétthafa og sjónvarpsstöðva þar í landi gætu valdið því að yfir 15 milljónir manna fái ekki að sjá leikinn. Spænska ríkissjónvarpsstöðin TVE vill allt í einu ekki greiða þær 12,33 milljónir dollara, um 830 milljónir íslenskra króna, sem stöðin hefur hingað til greitt fyrir sýningu frá stórviðureignum þessara liða. Spænska ríkissjónvarpið vill lækka greiðslur fyrir leiki sem sýndir eru á laugardagskvöldum en sýningarrétthafi spænsku deildarkeppninnar, FORTA, hótar að kippa snúrunum úr sambandi fyrir leikinn vilji TVE ekki hósta upp fyrrgreindri upphæð. Þau svæði sem eru í mestu hættunni á að missa af leiknum eru Castilla og Leon, Extremadura og Navarra. Á sama tíma á sér stað verkalýðsbarátta innan veggja sjónvarpssfyrirtækisins Telemadrid í Madrid sem gæti einnig valdið því að stór hluti sjónvarpsáhorfenda í höfuðborginni sjái ekki leikinn. Aðilar hafa ekki enn náð samkomulagi en sáttafundir eru á dagskrá nú vikunni. Íslenskir sjónvarpsáhorfendur þurfa þó ekki að hafa neinar áhyggjur því sjónvarpsstöðin SÝN er með allt á hreinu í þessum málum og verður stórviðureign Barcelona og Real Madrid þar í beinni kl. 21.00 á laugardagskvöld.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×