Sport

Tókst ekki hjá Birgi Leifi

Birgir Leifur Hafþórsson náði ekki markmiði sínu að komast á evrópsku mótaröðina í golfi þegar hann lauk keppni á úrtökumótinu á Spáni í dag og munaði aðeins einu höggi að hann kæmist í umspil. Birgir Leifur lék lokahringinn í dag á 73 höggum eða einu yfir pari og hafnaði í 40. sæti en 35 efstu kylfingarnir á mótinu öðlast fullt þátttökukort á evrópsku mótaröðina. Þegar aðeins tvær holur voru eftir hjá Birgi Leifi í dag var nánast útilokað að hann næði inn á topp 35 en þá fékk hann tvo fugla í röð á lokaholunum tveimur og beið því í ofvæni eftir að aðrir kylfingar myndu ljúka keppni. Þrátt fyrir þessi vonbrigði þá fær Birgir Leifur eitt tækifæri til viðbótar til að komast á evrópsku mótaröðina en með árangri sínum á úrtökumótunum í ár tryggði hann sér fullan rétt á Áskorendamótaröðinni og eins fær hann rétt inná einhver af mótum Evrópumótaraðarinnar. Með því að ná góðum árangri á Áskorendamótaröðinni gæti Birgir Leifur eftir allt saman tryggt sér fullt þátttökukort á evrópsku mótaröðina.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×