Sport

Ég verð bestur

Sænski knattspyrnusnillingurinn Zlatan Ibrahimovic er ekki aðeins þekktur fyrir að fara fimlega með knöttinn heldur ekki síður fyrir það sem hann á til að láta út úr munni sér. Zlatan sem leikur nú með Juventus á Ítalíu er ekki í neinum vafa um að hann verði besti knattspyrnumaður heims, eða svo sagði hann a.m.k. í viðtali við ítalska íþróttadagblaðið, Gazzetta dello Sport síðdegis í dag. "Aðeins meiðsli geta komið í veg fyrir að ég verði besti framherji í heimi", sagði sænski landsliðsmaðurinn sem kom inn á í seinni hálfleik þegar Svíar rúlluðu yfir Ísland, 1-4 á Laugardalsvellinum í síðasta mánuði. Tilefni viðtalsins við Gazzetta dello Sport var samlíking fjölmiðla á Svíanum og hollensku goðsögninni Marco van Basten eftir enn eina mögnuðu frammistöðuna með juventus sem sigraði Fiorentina í síðustu viku. Zlatan kom eins og stormsveipur inn í lið Juventus og hefur á skömmum tíma heillað stuðningsmenn liðsins sem og aðra upp úr skónum með frábærum töktum. Það má þó eftir allt saman  finna hógværð í orðum Svíans því hann fullyrðir að hann eigi enn nokkuð í land með að verða sá besti og að hans mati er Brasilíumaðurinn Ronaldinho bestur í heiminum í dag. "Ég vona að hann vinni Ballon d Or verðlaunin", (Knattspyrnumaður ársins), sagði Zlatan nú síðdegis.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×