Erlent

Atkvæðaseðlar í Flórída týndir

Svo virðist sem megnið af 58 þúsund utankjörfundaratkvæðaseðlum í Flórída hafi týnst í pósti. Fjölmargir seðlar týndust í sýslu þar sem demókratar unnu með yfirburðum í síðustu kosningum. Vandræðagangurinn í Flórída í kosningunum árið 2000 líður mörgum seint úr minni. Langt fram eftir nóttu vissu stærstu fréttastofur Bandaríkjanna ekki í hvorn fótinn þær ættu að stíga og skiptust á að lýsa Al Gore eða George Bush sem sigurvegara í Flórída, og þar með nýjan forseta Bandaríkjanna. Þegar niðurstaðan lá loks fyrir fóru demókratar fram á endurtalningu í Flórída. Endurtalningin fór einungis fram í þeim sýslum sem demókratar töldu sig örugga með sigur í en Bush sigraði engu að síður á endanum með 537 atkvæðum. Stjórnmálaskýrendur segja margir demókrata hafa tapað á því að vera ekki heiðarlegir og biðja einfaldlega um endurtalningu í öllum sýslum Flórída. Hvað sem því líður óskar að minnsta kosti enginn þess að annar eins skrípaleikur eigi sér stað á nýjan leik, en þó hefur verið sáð í jarðveginn fyrir slíkt. Í dag bárust fréttir af tugum þúsunda utankjörfundaratkvæða sem höfðu týnst í Flórída. Yfirmenn póstsins þar hafa farið yfir málið og segja þeir að ekki sé um að kenna mistökum hjá sér og margt bendi til þess að eitthvað gruggugt sé á seyði. Þegar horft er til þess hve mjótt er á mununum í kosningabaráttunni er ljóst að atburðir sem þessir koma til með að auka líkurnar á kærum og ásökunum af hálfu þess sem bíður lægri hlut í kosningunum. Ljóst er að lýðræðið í Bandaríkjunum hefur borið nokkra hnekki í hugum fólks sem telur jafnvel ekki öruggt að atkvæði þess verði talin. Í nýrri skoðanakönnun tímaritsins Time segjast 29% aðspurðra annað hvort smeykir eða mjög smeykir um að atkvæði sitt verði ekki talið og hátt í helmingur telur líkur á því að sá sem vinni kosningarnar, verði ekki réttkjörinn forseti. Þá segjast heil 58% óttast að úrslit kosninganna verði ákvörðuð fyrir dómstólum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×