Erlent

Tony Blair undir þrýstingi

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands viðurkenndi í dag að stríðið í Írak hefði valdið klofningi meðal bresku þjóðarinnar, og að upplýsingar um gereyðingavopnaeign Saddams Hússeins hefðu verið rangar. Hávær mótmæli skyggðu á ræðu Blairs á þingi Verkamannaflokksins síðdegis. Tony Blair ætlaði sér alls ekki að ræða stríðið í Írak á flokksþinginu, en flokkssystkin hans voru ekki á því að láta hann komast upp með að þegja. Hann ákvað því að viðurkenna ákveðin mistök án þess þó að biðjast afsökunar. Blair viðurkenndi að upplýsingar um gereyðingarvopnaeign Íraka hefðu reynst rangar, en hins vegar gæti hann ekki beðist afsökunar á að hafa steypt Saddam Hussein af stóli. Blair sagði að hryðjuverkamenn reyndu vísvitandi að eyðileggja framgang mála í Írak, þar sem árangur þar stæði fyrir allt það sem lýðræði væri. Mótmælendur trufluðu Blair hins vegar ítrekað, bæði andstæðingar stríðs og andstæðingar refaveiðibanns. Meðal annars var hrópað að Blair að hendur hans væru blóðugar. Blair brást við með því að svara manninum á þann veg að hann hefði rétt á að mótmæla og það væri gott að hann byggi í lýðræðisríki, þar sem hann hefði þann rétt. Og Blair rétti Gordon Brown, fjármálaráðherra, sáttahönd, en valdabarátta þeirra hefur verið áberandi undanfarin misseri. Blair sagði Brown náinn vin um tveggja áratuga skeið og besta fjármálaráðherra í sögu Bretlands.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×